Um hverfið

Skerjafjörður er hverfi um 150 íbúðarhúsa á strönd Skerjafjarðar sunnan flugbrautar. Íbúar eru rúmlega 700. Skerjafjörðurinn er um margt mjög sérstakt hverfi sem sameinar það að vera örskammt frá miðborginni með iðandi mannlífi og menningu en um leið afar friðsæl íbúðabyggð í nánum tengslum við náttúruna með friðaða strönd sem útivistarsvæði.

Jörðin á nesinu var nefnd Skildinganes og þorpið sem byggðist smám saman úr landi hennar var upphaflega nefnt Skildinganesþorp. Síðar var farið að kenna byggðina við fjörðinn sjálfan.

Friðuð náttúra

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001 til 2024 er strönd Skerjafjarðar friðlýst sem hverfisverndarsvæði ásamt Fossvogsbökkum. Um svæðið segir í skipulaginu:  Fjölbreyttar leirur og strandgróður, ríkt fuglalíf, setlög með skeljum og þörungum frá hlýskeiði ísaldar.

Í hverfisvernd felst að ekki er gert ráð fyrir mannvirkjagerð á svæðunum að öllu jöfnu nema þeim sem tengjast notkun þeirra til útivistar og náttúruskoðunar. Svæðin verða gerð aðgengileg fólki á látlausan hátt, svo sem með stígum og upplýsingaskiltum um sérstöðu þeirra. Allri mannvirkjagerð skal haldið í lágmarki á hverfisverndarsvæðum. Við gerð deiliskipulags á grundvelli náttúrufarsúttekta verður metið í hverju tilfelli fyrir sig hvort leita þurfi umsagnar Náttúruverndar ríkisins.

Stutt söguágrip

Ásamt upplýsingum um nafngiftir gatnanna í hverfinu. Tekið úr Húsakönnun Árbæjarsafns sem hlaða má niður í heild sem PDF skjali.

Suðvestan af Reykjavík, milli Seltjarnarness og Álftaness, liggur Skerjafjörður. Jörðin á nesinu var nefnd Skildinganes og það þorp sem smám saman byggðist úr landi hennar nefnt Skildinganesþorp. Seinna var farið að nefna byggðina eftir firðinum sjálfum.

Skildinganesið er eitt af heilsteypustu minjasvæðum í Reykjavík og er þar að finna fornleifar og fornminjar. Í landi Skildinganess falla tvö svæði undir borgarvernd, Skildinganeshólar og mólendið umhverfis þá og strönd Skerjafjarðar meðfram Ægissíðu og Skildinganesi.

Ekki er vitað með vissu hvenær byggð hófst á Skildinganesi en jarðarinnar er fyrst getið í heimildum árið 1553. Þá er hún talin sjálfstæð jörð og í eigu Skálholtsstóls. Þó svo að Skildinganes væri sjálfstæð jörð var hún talin með Reykjavíkurlandi fram til 1787. Það ár fékk Reykjavík kaupstaðarréttindi og var þá allt bæjarlandið mælt upp. Skildinganesjörðin var þá í fyrsta sinn afmörkuð og voru landamerki milli Skildinganess og Reykjavíkur talin vera sunnan frá Skerjafirði við Lambhól upp í Skildinganeshóla og þaðan austur í vörðu við Öskjuhlíð og þaðan í Skerjafjörð við Hangahamar.1 Skildinganes heyrði undir Seltjarnarneshrepp til ársins 1932 er það var innlimað inn í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.

Talsvert var um kot í landi Skildinganess þegar byggð tók að rísa á þessum slóðum á 19. öld. Þetta voru allt lítil og lágreist kot. Um langan aldur var tvíbýli í Skildinganesi og voru býlin nefnd Austurbær og Vesturbær. Austurbærinn var síðar rifinn en húsið að Skildinganesi 13 er talið vera gamli Vesturbærinn endurbyggður. Byggingarár hússins er nokkuð á reiki. Í Fasteignamati er húsið talið byggt árið 1863 en því hefur einnig verið haldið fram að það sé byggt heldur seinna eða á árunum 1869 – 1871. Sigurður Jónsson í Görðum segir í endurminningum sínum að húsið sé endurbyggt en ekki er vitað hvenær sú endurbygging átti sér stað né hvers eðlis hún var.

Á fyrsta og öðrum áratug 20. aldarinnar kom upp sú umræða að leggja Skildinganes undir Reykjavík og voru meðal annars lögð fram lagafrumvörp þess efnis en þau náðu ekki fram að ganga. Hugmyndir um höfn í Skerjafirði urðu einnig háværar skömmu eftir aldamótin 1900 og stofnuðu nokkrir eigendur Skildinganesjarðarinnar hlutfélag í þeim tilgangi, hlutafélagið Höfn. Frumvarp um hafnargerð í Skerjafirði var lagt fram árið 1907 á Alþingi en það fellt. 2 Hugmyndin um hafnargerð í Skerjafirði kom aftur upp á yfirborðið árið 1913, þegar hlutafélagið “The Harbours and Piers Association Ltd.” með Einar Benediktsson skáld í broddi fylkingar keypti landið sem félagið Höfn ætlaði undir samkonar starfssemi. Mikill kraftur var í félaginu til að byrja með og hóf félagið byggingu bryggjunnar sama ár. En ákvörðun bæjarstjórnar um að gera höfn norðan við miðbæinn og upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar setti strik í reikningin og hætt var við öll áform um hafnargerð í Skerjafirði.

Um 1922 eignaðist Eggert Classen stóran hluta Skildinganessjarðarinnar og um 1927 hóf hann að skipta landinu niður í lóðir sem hann seldi síðan. Það var upphafið að þéttbýlismyndun í Skildinganesi. Þegar Eggert keypti stóran hluta af Skildinganesjörðinni á árunum 1922 – 23 stóðu tvö hús á jörðinni, gamli Vesturbærinn og hlaðið hús. Ekki er vitað hvenær hlaðna húsið var byggt en talið er það hafi verið byggt um 1874. Eggert lét setja kvist á húsið og byggja við það inngönguskúr en auk þess lét hann byggja við það á þrjá vegu og gera á því endurbætur. Þessum breytingum mun hafa verið lokið árið 1924 en þá flutti Eggert í húsið ásamt fjölskyldu sinni. Hann skýrði húsið svo upp og nefndi það Reynistað eftir Reynistað í Skagafirði þaðan sem hann átti ættir að rekja. Húsið er í dag númer 15 við Skildinganes.

Eins og áður segir þá tilheyrði Skildinganes Seltjarnarneshreppi en árið 1932 var það lagt undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Miklar breytingar urðu á byggð í Skildinganesi með tilkomu breska hersins á Íslandi árið 1940. Bretar ákváðu að byggja herflugvöll seinni hluta árs 1940 í Vatnsmýrinni í Reykjavík og brátt teygði hann sig út á Skildinganes og inn í þá byggð sem myndast hafði í Skerjafirði. Vegna flugvallarins þurfti að flytja nokkuð af húsum í burtu og götur voru aflagðar. Í raun var byggð í Skildinganesi skipt í tvennt með tilkomu flugvallarins. Í dag er talað um Litla-Skerjafjöð og Stóra-Skerjafjörð. Svæði það sem er hér til umfjöllunar er í Stóra-Skerjafirði.

Árið 1959 var samþykktur skipulagsuppdráttur af svæðinu milli Bauganess og sjávar og mun það vera fyrsta skipulag í Reykjavík sem hlaut formlega staðfestingu samkvæmt skipulagslögum.3 Með skipulaginu bættust við þrjár nýjar götur í Skerjafirði, Fáfnisvegur, Gnitavegur og Skildinganesvegur. Árið 1968 var þessum götunöfnum breytt til núverandi horfs. Það sama ár var gömlum götunöfnum breytt.

Með nýja skipulaginu árið 1959 tóku við tímar mikillar uppbyggingar á svæðinu sem hefur staðið fram á þennan dag. Ástæður þess að lóðir í Skildinganesi urðu svo eftirsóttar voru þær að á þessum tíma var skortur á einbýlishúsalóðum í Reykjavík. Þá var áhersla lögð á það í Reykjavík að byggja fjölbýlishús til að mæta aukinni fólksfjölgun í borginni. Lóðirnar sem voru til sölu voru stórar eignalóðir og ekki á allra færi að kaupa.

Nafngiftir gatnanna

Nafngiftir gatnanna sem hér um ræðir eiga rætur sínar að rekja víða. Þegar Skildinganes var innlimað í Reykjavík árið 1932 voru göturnar þar færðar inn í gatnaskrár Reykjavíkur.

Bauganes
Bauganes hét áður Baugsvegur og er nefnt eftir félaginu Baugi en það kom við sögu hafnaráforma í Skerjafirði. Nafnið Bauganes var samþykkt árið 1968.

Baugatangi
Baugatangi heitir eftir sama félagi og Bauganes, eða Baugi. Nafnið Baugatangi var samþykkt árið 1968.

Einarsnes
Einarsnes hét áður Þvervegur og var það vísun í staðhætti. Nafnið Einarsnes er tilvísun í Einar Benediktsson skáld sem á sínum tíma beitti sér fyrir hafnargerð við Skerjafjörð. Stofnaði hann meðal annars félagið “The Harbours and Piers Association Ltd.” í þeim tilgangi. Nafnið Einarsnes var samþykkt árið 1968.

Fáfnisnes
Fáfnisnes hét áður Fáfnisvegur. Fáfnisnes er nefnt eftir orminum Fáfni sem sagt er frá í Eddukvæðum. Ormur þessi lá á gulli sínu á Gnitaheiði. Gatan kom fyrst fram á skipulagsuppdrætti frá árinu 1959 af svæðinu milli Bauganess og sjávar. Nafnið Fáfnisnes var samþykkt árið 1968.

Gnitanes
Gnitanes hét áður Gnitavegur. Gnitanes er nefnt eftir Gnitaheiði þeirri sem sagt er frá í Eddukvæðum og Völsungasögu. Ormurinn Fáfnir lá á gulli sínu á Gnitaheiði. Gatan kom fyrst fram á skipulagsuppdrætti frá árinu 1959 af svæðinu milli Bauganess og sjávar. Nafnið Gnitanes var samþykkt árið 1968.

Skeljanes
Skeljanes hét áður Shellvegur. Shellvegur var kenndur við olíufélagið Shell eða Skeljung, sem hefur lengi haft olíustöð við Skerjafjörð. Skeljanes liggur frá Einarsnesi að olíustöð Skeljungs. Nafnið Skeljanes var samþykkt árið 1968.

Skeljatangi
Skeljatangi gengur út frá Skeljanesi. Gatan er, eins og Skeljanes, kennd við olíufélagið Shell eða Skeljung. Nafnið Skeljatangi var samþykkt árið 1968.

Skildinganes
Skildinganes hét áður Skildinganesvegur. Gatan kom fyrst fram á skipulagsuppdrætti frá árinu 1959 af svæðinu milli Bauganess og sjávar. Nafnið Skildinganes var samþykkt árið 1968.

Skildingatangi
Skildingatangi liggur út frá Skildinganesi. Nafnið Skildingatangi var samþykkt árið 1968.


Um bloggið

Prýðifélagið Skjöldur Skerjafirði

Íbúasamtök Skerjafjarðar

Prýðifélagið

Prýðifélagið Skjöldur, Skerjafjordur

er samtök íbúa Skerjafjarðar sunnan flugvallar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P8140350
  • P8140354
  • P8140353
  • P8140348
  • P8140346

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband