Skipulags- og umhverfismál

Deiliskipulag í Skerjafirði

Skerjafjörðurinn skiptist í tvö deiliskipulagssvæði:

  • Skildinganes sem afmarkast af Bauganesi og vestasta hluta Einarsnes að norðan, Skeljanesi að austan og ströndinni að sunnan og vestan.
    Heildarskipulag samþykkt 24. febrúar 2004 - sjá uppdrátt á PDF formi.
  • Einarsnes sem afmarkast af Einarsnesi að norðan, Skeljanesi að austan og Bauganesi að sunnan og vestan.
    Skipulag samþykkt 5. september 1995 - heildaruppdráttur ekki til.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi Skildinganess er gert ráð fyrir 17 nýbyggingareitum á lóðum víða í hverfinu auk þess sem þrjú svæði eru skilgreind sem útivistar- og leiksvæði. Auk leiksvæðisins sem þegar er tilbúið milli Einarsness og Skildinganess er gert ráð fyrir leiksvæði austan við Gnitanes og á stóra óbyggða svæðinu milli Bauganess og Skildinganess. Leikvöllur er nú þegar í einu horni þess svæðis.

Hverfisstjóri
Á skrifstofu skipulagsfulltrúa starfa hverfisstjórar sem sinna hver sínu hverfi. Margrét Þormar, arkítekt, er hverfisstjóri Skerjafjarðar og Vesturbæjar.

Skipulagssjá

Skipulagssjá er öflugur kortagrunnur þar sem borgarbúar geta með einföldum hætti nálgast upplýsingar um stöðu skipulags í öllum hverfum. Upplýsingar um stöðu skipulagsmála í Skerjafirði má nálgast með því að velja Vesturbæ sem hverfi og smella svo á viðkomandi deiliskipulag í Skerjafirði.

Aðalskipulag Reykjavíkur

Gildandi Aðalskipulag Reykjavíkur, 2001-2024, er aðgengilegt í heild á vef Skipulags- og byggingarsviðs og hlaða má niður helstu gögnum í PDF formi:

 

Starfsleyfi Reykjavíkurflugvallar

Umhverfissvið Reykjavíkur gefur út starfsleyfi fyrir Reykjavíkurflugvöll þar sem sett eru margvísleg skilyrði sem varða umhverfismál á borð við hávaðamengun. Núgildandi starfsleyfi er til 1. janúar 2016. Hér á eftir er vitnað í nokkur ákvæði sem varða umhverfismálin og nágrenni vallarins.

Hljóðvist

Varnir gegn hávaðamengun
Rekstraraðila er skylt að gera allt sem í hans valdi er til að draga úr hávaða af völdum flugumferðar og starfsemi vallarins á jörðu niðri. Hann skal hvetja til þess að viðhald og útbúnaður véla sé með þeim hætti að dregið sé úr hávaða frá þeim. (5.1)

Tímatakmarkanir á flugumferð
Næturtakmarkanir:  Á milli 23:30 og 07:00 á virkum dögum og 23:30 og 08:00 um helgar og á almennum frídögum eru flugtök ekki leyfð nema vegna flugs er tilgreint er í gr. 5.2.*
Reynt skal að takmarka lendingar á þessum tíma eins og unnt er.
Frá 1. maí til 1. september er leyfilegt að hafa völlinn opinn til 23:30 virka daga og helgar og frá kl. 07:30 um helgar og á almennum frídögum að höfðu samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. 
Flugmálastjórn er heimilt að veita undanþágu frá opnunartíma vallarins ef brýna nauðsyn ber til. (5.4.a)

Kennslu- og æfingaflug - Snertilendingar
Takmarkanir á snertilendingum: 
Snertilendingar eru einungis leyfðar  mánudaga-fimmtudaga frá 09:00-19:00, föstudaga frá 09:00-17:00, og um helgar og á almennum frídögum kl. 11:00-16:00 frá 1. september til 1. maí. 
Snertilendingar almenna frídaga og um helgar eru ekki heimilar frá 1. maí til 1. september. (5.4.b)

Stefnt skal að því að snertilendingar í æfinga- og kennsluflugi flytjist á flugvöll í hæfilegri fjarlægð frá Reykjavík. (5.8)**

Umhverfismál

Athafnasvæði
Flugbrautir og flughlöð skulu vera með vökvaheldu undirlagi. (2.1)

Olíumengað fráveitu- og regnvatn skal leitt um olíuskilju. Olíuskilja skal vera skv. leiðbeiningum Hollustuverndar ríkisins. Viðhaldi og eftirliti með olíuskiljum skal einnig háttað skv. sömu leiðbeiningum. (2.2)

Rekstraraðila er skylt að halda flugvallarsvæðinu hreinu og snyrtilegu. Allsherjar hreinsun þess skal fara fram fyrir 1. júní ár hvert í samráði við aðra rekstraraðila á svæðinu. (2.4)


Meðferð hættulegra efna og spilliefna
Rekstraraðili skal ávallt leitast við að nota sem minnst mengandi efni við starfsemina. (3.1)

Búnaður við eldsneytis- og olíugeymslur skal uppfylla kröfur um slíkan búnað á flugvöllum, sbr. gildandi reglugerð um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi. (3.2)

Rekstraraðili skal eftir mætti draga úr myndun spilliefna, s.s. afísingarefna, olíu- og bensínúrgangs. Spilliefnum skal haldið aðskildum eftir tegundum eftir því sem við á og skilað til viðurkennds móttökuaðila. (3.3)

Geyma skal hættuleg efni og spilliefni í lokuðum ílátum á vökvaheldu undirlagi og á þann hátt að ekki sé hætta á að þau berist út í jarðveg eða frárennsli. (3.4)

Öll mengunaróhöpp þar sem hættuleg efni eða spilliefni berast í fráveitulagnir, jarðveg, sjó eða yfirborðsvatn ber tafarlaust að tilkynna Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. (4.1)


* Grein 5.2: Eftirfarandi flugumferð er undanskilin hávaðatakmörkunum: Sjúkraflug, flug vegna mannúðarmála, flug vegna leitar og björgunar, flug vegna þjóðaröryggis eða annara ríkismála.  Ennfremur öll flugumferð vegna véla í neyð eða véla sem ekki er hægt að beina annað, m.a. vegna varaflugvallarhlutverks Reykjavíkurflugvallar.

** Í gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 segir m.a. um æfinga- og kennsluflugvöll:
"Samkvæmt bókun borgarstjóra og samgönguráðherra vegna Reykjavíkurflugvallar frá 14. júní 1999 er gert ráð fyrir að snertilendingar í æfinga- og kennsluflugi flytjist á nýjan flugvöll í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Í flugmálaáætlun er ráðgert að hefja framkvæmdir við hann árið 2003 og við það miðað að hægt sé að flytja þangað æfinga-, kennslu- og einkaflug."
Nýr völlur fyrir æfinga- og kennsluflug er hluti af þeirri athugun á flugvallarkostum sem nú er í gangi.


Um bloggið

Prýðifélagið Skjöldur Skerjafirði

Íbúasamtök Skerjafjarðar

Prýðifélagið

Prýðifélagið Skjöldur, Skerjafjordur

er samtök íbúa Skerjafjarðar sunnan flugvallar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P8140350
  • P8140354
  • P8140353
  • P8140348
  • P8140346

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband