Aðalfundur Prýðifélagsins Skjaldar 2010

Fundurinn hófst kl. 20:00 í húsakynnum Ættfræðiþjónustunnar ORG ehf. við enda Skeljanes. Mættir voru um 20 fundarmenn að meðtaldri stjórn félagsins. Ótto formaður setti fundinn og kynnti dagskrána:
  • Kosning fundarstjóra og ritara

  • Formaður les skýrslu stjórnar

  • Gjaldkeri leggur fram reikninga félagsins

  • Kosning stjórnar

  • Lagabreytingar

  • Önnur mál


Kosning fundarstjóra og ritara:

Fundarstjóri kosinn Jens Pétur Jenssen og ritari Björg Kjartansdóttir.

Skýrsla stjórnar

Formaður las skýrslu stjórnar, sjá fylgiskjal 1.

Umræða um hraðahindranir í götum hverfisins, eins og upphækkanir og þrengingar á götu. Fundarmenn voru sammála um að árangursríkara sé að hemja hraða ökumanna með skilti er sýnir ökuhraða bíla og blikkljós, ef hraði fer yfir ákveðið viðmið. Samþykkt að stjórn félagsins skoði möguleika þess að koma fyrir slíku skilti í Einarsnesi.

Fundarmenn voru sammála um að stjórn Prýðifélagsins haldi áfram að beita sér fyrir betri strætó samgöngum við hverfið. Sérstaklega ætti bæta strætósamgöngur úr Skerjafirði í Vesturbæ Reykjavíkur, þangað sem íbúar sækja margvíslega þjónustu eins og heilsugæslu, matvöruverslun, sund, skóla o.fl.

Árshlutareikningur fyrir tímabilið 21. nóvember 2008 til 1. nóvember 2010

Árshlutareikningi félagsins dreift til fundarmanna, sjá fylgiskjal 2 og gjaldgeri kynnti reikninginn. Staða á reikningi félagsins er 276,534 kr. Einu tekjur félagsins á tímabilinu var frá kyndlasölu fyrir áramótabrennu en fyrir nóvember 2008 fékk félagið fjárstyrki m.a. frá Reykjavíkurborg. Fundarmenn sammála um að stjórn félagsins skoði möguleika á fjárstyrk frá borginni til að standa straum af útgjöldum vegna sumarhátíðar. Jafnframt skýrði gjaldgeri frá því að á tímabilinu voru innlánsvextir hækkaðir úr 2% í 2,3%. Umræða skapaðist um hvort taka ætti upp félagsgjöld hjá íbúum í hverfinu, t.d. hafa 500 kr. ársgjald fyrir hverja fjölskyldu. Ekki var áhugi fyrir slíku því fundarmenn töldu ekki ljóst hvers konar skyldur yrðu þá lagðar á stjórn félagsins. Að lokinni umræðu var reikningurinn samþykktur samhljóða.

Kosning nýrrar stjórnar

Samkvæmt reglum félagsins skulu stjórnarmenn kosnir til tveggja ára, í samræmi við þessa reglu víkja úr stjórn, Óttó E. Guðjónsson formaður og Efemía E Guðmundsdóttir gjaldkeri, Björg Kjartansdóttir, Hildur Arna Hjartardóttir og Jens Pétur Jensen sitja áfram í stjórn. Fráfarandi formaður óskaði eftir framboðum frá fundarmönnum í stjórn félagsins.

Eftirtaldir aðilar gáfu kost á sér og voru kosnir samhljóða: Sigvaldi Kaldalóns, Ívar Pálsson, Reynir Guðmundsson og Ingvar Vilhjálmsson.

Breytingar á lögum stjórnar

Engar tillögur komu fram og lög félagsins standa því óbreytt.

Önnur mál

Bættar samgöngur fyrir akandi umferð frá Skerjafirði í Vesturbæ:

  1. Reynir Sigurðsson íbúi að Skildinganesi 30, óskaði eftir því að stjórn félagsins beiti sér fyrir því við stjórn gatnamála í borginni, að opnað verði fyrir akandi umferð frá Skerjafirði  í gegnum Starhaga.

  2. Garðar Halldórsson íbúi að Skildinganesi 42, bar upp þá tillögu að stjórn félagsins kannaði hvort hægt væri að opna fyrir akandi umferð inn á Ægissíðuna, samhliða nýlögðum hjólreiðastíg fyrir neðan Starhaga. Annar möguleiki væri að opna fyrir innakstur af Suðurgötu inn á Lynghaga og opna umferðareyju þannig að ökumenn er koma akandi norður Suðurgötu geti beygt beint af Suðurgötu inn á Lynghaga og sleppt því að taka U-beygju norðar á Suðurgötunni.

Samþykkt að stjórn skoði þessa möguleika.

Gatnamót Bauganes og Einarsnes:

Ívar Pálsson lagði fram skriflega tillögu um bætt umferðaröryggi á gatnamótum Einarsness og Bauganess, sjá fylgiskjal 3. Í tillögunni kemur m.a. fram að óheppilegt er þegar sendibíl er lagt á þessu horni (fyrir framan húsnæði þar sem áður var rekin verslun í hverfinu). Blindar þetta sýn ökumanna er beygja í vesturátt. Óskaði Ívar eftir því að sú tillaga berist frá fundinum til borgaryfirvalda að umrætt stæði verði lokað, amk bannað að leggja sendibílum þar. Einnig að borgaryfirvöld fjarlægi blómapott á þessu horni sem einnig blindar sýn ökumanna og skapar hættu fyrir hjólreiðafólk. Samþykkt að stjórn félagsins beini þessum tilmælum til íbúa í umræddu húsi og óski eftir því við borgaryfirvöld að fjarlægja blómapottinn.

Bókabíll

Fundarmenn sammála tillögu eins fundarmanna um að stjórn félagsins óski eftir því við Borgarbókasafn að bókabíll leggi við innkeyrslu að Baugatanga, svæði sem bílinn lagði öllu jafnan á, áður en kom til framkvæmda við götuna nú í sumar.

Umgengni í kringum hús í hverfinu

Þór Magnússon íbúi að Bauganesi 6, óskaði eftir umræðu fundarmanna um hvernig mætti hvetja íbúa hverfisins til að bæta umgengni í kringum hús sín. Til að mynda með efna til sérstaks átaks í hverfinu þar sem íbúar yrðu hvattir til að fjarlægja greinar af trjám sem ná út á gangstíga. Einnig mætti efna til sérstaks “þrifnaðardags” í hverfinu. Þór nefndi jafnframt að Prýðifélagið yrði að standa undir nafni og sjái til þess að hverfið geti státað af prýði! Fundarmenn tóku undir þessa tillögu Þórs um að finna leiðir til að bæta umgengni í hverfinu. Ákveðið að stjórn félagsins efni til sérstaks tiltektardags í hverfinu á vormánuðum.

Nágrannavarsla

Einn fundarmanna nefndi mikilvægi þess að minna á og efla nágrannavörslu sem þegar er í hverfinu. Með því að hvetja íbúa til að koma með ábendingar ef vart verður við óeðlilegar mannaferðir í kringum hús, annað hvort til lögreglu eða til umsjónarmanns nágrannavörslu, sem er Ívar Pálsson með tölvupósti á netfangið ivar@sea.is en þar sem Ívar var kjörinn í stjórn félagsins má gera ráð fyrir því að áherslur nágrannavörslu verði meira áberandi í Skerjafirði á komandi misserum. Ábending kom um að fylgjast sérstaklega með bílum sem keyra óeðlilega rólega og stefnulaust um hverfið. Bent var á að ráð sé að keyra á eftir þannig bílum verði íbúar varir við slíkt. 

Stofnfundur félagsins

Einn fundarmanna óskaði eftir upplýsingum um hvaða ár félagið var stofnað (á fundi sem haldinn var í flugskýli austan við flugbrautina). Stjórnin mun afla upplýsinga um slíkt í fundargerðarbókum og setja á heimasíðu félagsins. Ábendingar um þetta væru vel þegnr frá eldri íbúum hverfisins.

Fjöldi íbúa í Skerjafirði

Ábending kom frá einum fundarmanna um að forvitnilegt væri að hafa upplýsingar um fjölda íbúa í hverfinu á heimasíðu félagsins. Stjórnin skoðar möguleika þess.

Opinn fundur með íbúum í Skerjafirði

Ábending kom frá einum fundarmanna um að efna til opins fundar með borgurum þar sem hægt yrði að koma fram með tillögur um hvernig mætti bæta samfélagið í Skerjafirði. Samþykkt að stjórn félagsins efni til slíks fundar á vormánuðum.

Félagsmiðstöð í hverfinu

Tillaga kom frá fundarmanni um að skoða möguleika þess að hverfamiðstöð yrði opnuð í húsnæði í eigu ÍTR (Íþrótta og tómstundaráðs Reykjavíkur) við enda Skeljaness. Fundarmenn sammála um að slík hverfamiðstöð myndi bæta aðstöðu fyrir unglinga í hverfinu til tómstundaiðkunar. Einnig kom fram tillaga um að fundinn yrði staður fyrir smíðavöll í hverfinu til að smíða bíla fyrir kassabílarallý á sumarhátið félagsins. Samþykkt að stjórn félagsins skoði möguleika þessa.

Að lokum þakkaði fundarstjóri fráfarandi stjórnarmönnum fyrir mjög vel unnin störf í þágu félagsins og þakkaði jafnframt fundarmönnum fyrir komuna.

Ákveðið að ný stjórn komi saman hið fyrsta til að undirbúa áramótabrennu, kyndlasölu og hópgöngu íbúa að brennu. Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 21:50.

Fundargerð þessa ritaði Björg Kjartansdóttir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Prýðifélagið Skjöldur Skerjafirði

Íbúasamtök Skerjafjarðar

Prýðifélagið

Prýðifélagið Skjöldur, Skerjafjordur

er samtök íbúa Skerjafjarðar sunnan flugvallar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • P8140350
  • P8140354
  • P8140353
  • P8140348
  • P8140346

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband