Þriðjudagur, 25. september 2007
Vel heppnuð hverfishátíð í misheppnuðu veðri
Skerfirðingar komu saman laugardaginn 8. september til að halda árlega hverfishátíð. Veðurstofan spáði mestu úrkomu síðustu missera þennan dag svo stjórn Skjaldar og vaskur hópur sjálfboðaliða tók daginn snemma við að tjalda stóru samkomutjaldi í Bauganesinu. Til viðbótar voru reist þrjú smærri tjöld yfir grillaðstöðuna. Brátt tóku hverfisbúar að streyma að með grill, borð og stóla. Tjaldið var skreytt, borðin dúkuð og börn hverfisins boðin velkomin í pylsuveislu. Þá hófst regnið fyrir alvöru.
Íbúar sýndu og sönnuðu að þeir láta ekki veður aftra sér frá því að koma saman og gleðjast með grönnum sínum. Tjaldið góða fylltist af kátum gestum og matarilminn lagði yfir hverfið. Eggert Benedikt formaður Skjaldar tók upp gítarinn og brátt yfirgnæfði hressilegur söngur regnið sem buldi án afláts á tjaldinu.
Stjórn Prýðifélagsins Skjaldar þakkar öllum sem tóku þátt í að gera þessa hátíð að því ævintýri sem hún varð.
Í myndaalbúminu Hverfishátið 2007 eru nokkrar myndir frá hátíðinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 24. ágúst 2007
Hverfishátíð - barnahátíð og götugrill - 8. september
Annar af hápunktum ársins í félagslífi Skerjafjarðar er hin árlega SUMARHÁTÍÐ!
Að þessu sinni verður hátíðin haldin í miðju hverfisins; í Bauganesinu á milli leikskólans Skerjagarðs Bauganesi 13 og opna leiksvæðisins.
Þar rís veglegt veislutjald fyrir gesti svo hátíðin er ekki háð duttlungum í veðri.
Hátíðin hefst með Skerjavershátíð barnanna kl. 16:00 þar sem boðið verður upp á leiki og keppni. Hoppikastalar og leiktæki og Skerjagarður opnar garðinn fyrir þau yngstu. Endað með pylsuveislu.
Síðdegis, eða kl. 17:30, verður kynt upp fyrir götugrill hverfisbúa. Prýðifélagið Skjöldur og Skerjaver leggja til meðlæti, pylsur, brauð og drykki fyrir börnin auk matar- og drykkjaráhalda en hver og einn leggur til sinn grillmat og drykki.
Þar sem við höldum hátíðina í sameiningu er vel þegið að þeir sem eiga stór útigrill, garðstóla og ferköntuð garðborð sem raða má saman í langborð hafi samband við Margréti (mg@blind.is) eða Eggert (s. 8581011, eggert100@hotmail.com) sem fyrst eða komi með hlutina á hátíðarsvæðið fyrir kl. 15:30 á hátíðardaginn 8. september nk.
Sjálfboðaliðar við uppsetningu og frágang eru velkomnir enda góð leið við efla samheldnina og kynnast öðrum íbúum Skerjafjarðar.
Enginn aðgangseyrir, engin skráning - allt sem þarf er matarbiti á grillið, drykkjarlögg og vilji til að gleðjast með góðum grönnum
Auglýsing hverfishátíðar (pdf)
Aðalstyrktaraðilar Sumarhátíðar Skerfirðinga 2007 eru Landsbanki Íslands, N1 og Skerjaver.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 15. júlí 2007
Um fegurð og fjör Skerjafjarðar
Ávarp frá formanni Prýðifélagsins Skjaldar
Prýðifélagið Skjöldur var stofnað haustið 1994. Í fyrsta fréttabréfi félagsins er sagt frá stofnfundinum, vali á nafni og fyrstu stjórn. Jean Eggert Hjartarson varð fyrsti formaður Skjaldar, Kjartan Gunnar Kjartansson varaformaður, Hákon Ólafsson ritari, Valgerður Marínósdóttir gjaldkeri og Kristján Hreinsson meðstjórnandi.
Nokkur umræða varð um nafn félagsins. Orðið prýðifélag var sótt í hugmyndir frá lokum 19. aldar um að stofna Prýðifélag Reykjavíkur, þótt þeim hugmyndum hafi ekki verið hrint í framkvæmd þá. Skjöldur vísar hins vegar í Skildinganesjörðina, en land hennar náði áður yfir stóran hluta hverfisins.
Áhersluatriði stjórnar
Þótt margt hafi áunnist á þeim þrettán árum sem félagið hefur starfað, er annað óunnið. Í áðurnefndu fréttabréfi er t.d. minnst á þörf fyrir frágang á útivistarsvæði fyrir börn og unglinga á grænu svæði á milli Skildinganess og Bauganess. Núverandi stjórn hefur því einbeitt sér að fáum atriðum, sem við teljum sem brýnast að koma í verk. Þau eru:
- Að ganga frá fyrrnefndu útivistarsvæði í miðju hverfisins.
- Að flytja gangstétt vestan við flugbrautarenda í hæfilega fjarlægð frá akbraut. Nú er gangstéttin nánast samvaxin götunni, sem skapar fótgangandi hættu, sérstaklega þegar snjór er yfir.
- Að styrkja sjávargarðinn neðan við Skildinganes og gera hann upp sem líkast upprunalegri mynd.
Við höfum rætt þessi atriði við borgarstjóra og fleiri innan borgarkerfisins. Vonast er til að skriður komist á mál innan tíðar. Að auki höfum við lagt áherslu á öryggismál hverfisins og rætt þau við lögregluþjóna okkar nágrennis.
Vefur og merki Skjaldar
Loks höfum við opnað þessa vefsíðu, í því augnamiði að auka streymi upplýsinga til félagsmanna og frá þeim. Hér á vefnum og í haus nýjasta fréttabréfs félagsins birtist í fyrsta sinn nýtt merki félagsins sem er kort af götum hverfisins. Úr kortinu má sjá mynd sem margt má lesa í. Við teljum að hún sé af manni í ræðupúlti sem heldur innblásna ræðu um fegurð og fjör Skerjafjarðar.
Sumarhátíð 8. september
Fjörið ætlum við ekki síst að efla á árlegri sumarhátíð okkar þann 8. september nk. en þá höldum við m.a. götugrill í Bauganesinu í miðju hverfisins. Meira um það hér í þessari færslu.
Það er von okkar stjórnarmanna að vinna Skjaldar skili Skerjafirði og Skerfirðingum enn betra umhverfi. Við treystum á stuðning ykkar og þátttöku.
Eggert Benedikt Guðmundsson,
formaður Prýðifélagsins Skjaldar
Bloggar | Breytt 24.8.2007 kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Prýðifélagið Skjöldur Skerjafirði
Færsluflokkar